Vöruskipti við útlönd voru hagstæð um 15,2 milljarða króna í síðasta mánuði. Þetta er talsverður bati á milli ára en í október í fyrra var afgangurinn 8,3 milljarða. Öðru máli gegnir hins vegar um fyrstu tíu mánuði ársins. Afgangur af vöruskiptum þá nam 65,1 milljarði króna, sem er 28% samdráttur á milli ára. Afgangurinn á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs nam 90,7 milljörðum króna.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru vörur fluttar út fyrir 63,3 milljarða króna í október og inn fyrir 48 milljarða. Á fyrstu tíu mánuðum ársins nam vöruútflutningur 526,8 milljörðum króna á móti 461,8 milljarða króna innflutningi.