Verulega hefur hægt á verðlækkunum á íbúðamarkaði samkvæmt mælingum Hagstofunnar og Þjóðskrár. Hinsvegar er enn of snemmt að segja að botninum sé náð á íbúðamarkaði þar sem að miklar sveifur eru á milli mánaða og enn ekki útséð með að verðlækkanir séu endanlega að baki.

Þetta segir í morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Á undanförnum 12 mánuðum hefur íbúðaverð á landinu öllu lækkað um 1,7% á síðastliðnum 12 mánuðum. Árið þar á undan nam lækkunin um 8,5 samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Samkvæmt mælingum Þjóðskrár á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu hefur íbúðaverð þar lækkað um 3,2% undanfarna 12 mánuði.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í gær hækkaði íbúðaverði um 1% í október frá fyrri mánuði. Íbúðaverð hefur sveiflast mikið það sem af er ári og samningar fáir, þó þeim hafi fjölgað undanfarnar vikur.

Greiningin segir að fáir samningar geti skekkt myndina. „. Frá því að íbúðaverð náði hámarki í lok árs 2007 hefur það lækkað um 13% að nafnverði og um rúm 35% að raunvirði. Lunginn af þeim verðlækkunum sem við munum sjá í þessari kreppu er líklega kominn fram þó að enn sé talsverð óvissa framundan á íbúðamarkaði.“

Viðsnúningur framundan

Þó megi telja líklegt að hægfara viðsnúningur sé framundan á íbúðamarkaði og botninn sé í sjónmáli. „Það sem styður þá þróun er meðal annars viðsnúningur í kaupmætti, hjöðnun verðbólgu, styrking á gengi krónunnar, lægri vextir og hin almenni viðsnúningur í hagkerfinu sem framundan er.

Taki hagkerfið við sér á næsta ári eins og spár gera ráð fyrir mun íbúðamarkaðurinn fylgja með. Það sem hinsvegar  helst gæti staðið í vegi fyrir áframhaldandi viðsnúningi á íbúðamarkaði er bakslag í efnahagsbatanum, viðvarandi óvissa varðandi skuldastöðu heimilanna, bakslag á vinnumarkaði og viðvarandi fólksfækkun.“