Ávöxtunarkröfur verðtryggðra skuldabréfa lækkuðu í viðskiptum gærdagsins. Strax um morguninn var opnað aftur fyrir viðskipti með HFF bréfin, það er bréf Íbúðalánasjóðs, eftir að viðskipti voru stöðvuð allan þriðjudaginn.

Kröfur á HFF bréf lækkuðu um 18 til 26 punkta, mest á bréf til skamms tíma, fyrir utan HFF14 sem lækkaði um 1 punkt. Ávöxtunarkröfur skuldabréfa útgefin af Reykjavíkurborg og Lánasjóði sveitarfélaga lækkuðu einnig.

IFS greining bendir á að ástæðan fyrir lækkuninni sé sú að skýrsla verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála var birt síðastliðinn þriðjudag. „Þar er m.a. lagt til að ÍLS hætti nýjum útlánum, eignasafnið látið renna út eða selt og stofnað verði nýtt húsnæðislánafélag úr hluta ÍLS, án ríkisábyrgðar, sem verður í takti við nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd,“ segir í Morgunpóstinum.

Þá er bent á að engar hugmyndir hafi verið í skýrslunni um skilmálabreytingar á gömlu HFF-bréfunum og ríkisábyrgðin áréttuð og áhættuálag HFF-bréfanna á markaði hafi lækkað í gær. Einnig er lagt til að ný neytendalán verði óverðtryggð til framtíðar til að koma til móts við tillögur sérfræðihóps um afnám verðtryggingar. „Slíkt hefði í för með sér að væntanlegt framboð verðtryggðra skuldabréfa á markaði yrði ekki mikið í framtíðinni og einskorðist við útgáfur ríkissjóðs, sveitarfélaga, LSS og annarra fyrirtækja. Væntingar um lítið framboð í framtíðinni hefur áhrif á verðtryggða kröfu til lækkunar,“ segir í Morgunpóstinum.