Íslenska friðargæslan hefur gengið í gegnum erfitt tímabil undanfarin ár og ýmsir orðið til að gagnrýna starfsemi hennar. Fjallað er um sögu íslenski friðargæslunnar í úttekt Viðskiptablaðsins.

Fyrir utan þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu verkefni í Palestínu árið 1950, þar sem við sendum íslenska lögreglumenn til aðstoðar, var lítil þátttaka af okkar hálfu í alþjóðlegri friðargæslu fram til ársins 1994. Fall Sovétríkjanna og hrun kommúnismans í Evrópu breytti heimssýninni og mörg alþjóðasambönd og hernaðarbandalög þurftu að endurskilgreina sig.

Í kjölfar þess að múrinn féll brutust víða út átök í túngarði Evrópu og þá ekki aðeins á milli þjóða heldur einnig innan þjóða. Til marks um breytingarnar, og þá auknu þörf og kröfu um alþjóðlegar friðargæslusveitir sem kom upp, voru friðargæsluliðar á vegum Sameinuðu þjóðanna innan við 10.000 árið 1991 en árið 1993 er tala þeirra komin uppí tæp 80.000 manns.

Sameinuðu þjóðirnar áttu erfitt með að koma inní þau átök sem blossuðu upp og ollu fjöldamorðin í Srebrenica straumhvörfum hvað það varðar. Í Srebrenica í Bosníu höfðu Sameinuðu þjóðirnar lýst borgina sem friðarsvæði og þangað leituðu þúsundir vopnlausra múslímskra flóttamanna. En þeir hollensku friðargæslumenn sem vörðu svæðið gátu lítið gert þegar serbneskur her Mladic kom til borgarinnar og eftir að Mladic var búinn að láta mynda sig við að dreifa súkkulaði til svangra múslimanna lét hann drepa þá. Öllum múslímskum karlmönnum var smalað saman og þeir drepnir.

Fjallað er um sögu íslensku friðargæslunnar í úttekt Viðskiptablaðsins um helgina.