„Við munum nú taka okkur eðlilegan tíma til að skilja vel þetta þjóðhagslega mikilvæga fyrirtæki og þau verðmæti sem í rekstri þess felast. Ákvörðun um tímasetningu sölu Icelandic Group og fyrirkomulag slíkrar sölu verður því ekki tekin fyrr en við lok þriðja ársfjórðungs 2010," segir Steinþór Baldursson framkvæmdastjóri Vestia í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins aðspurður hvenær til standi að selja Icelandic Group, sem dótturfélag Landsbankans hefur tekið yfir.

Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood, sagði við Viðskiptablaðið í gær að áhugavert verði að fylgjast með hvers lengi Landsbankinn hyggist halda eignarhluti sínum í Icelandic Group.

Steinþór segir í svari sínu að frá því að fjárhagsleg endurskipulagning félagsins hófst í október 2008 hafi verið unnið ötullega að því að lækka skuldir og veltufjárbindingu félagsins og framlegð þess hafi aukist í  kjölfarið. Reksturinn skili nú hagnaði.

„Með aðkomu Vestia að IG er stigið lokaskref fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins en næstu mánuði mun Vestia styðja við stjórnendur þess svo hægt sé að fullnýta tækifæri í rekstrinum og hámarka verðmæti hlutafjár þess. Ytri þættir taka einnig mið af stöðu og áhrifum efnahagsumhverfis á starfsemi félagsins, t.d. framboði og raunverulegri eftirspurn fjárfesta á hverjum tíma, framboði fjármögnunarúrræða o.s.frv. Umfram allt þarf mat á ráðstöfun eignanna að taka tillit til þess að eðlilegt hagrænt virði fáist fyrir eignina," segir Steinþór.

Eruð þið með almenna stefnu um tímalengd; hvað Vestia mun halda þessum fyrirtækjum lengi sem tekin hafa verið yfir?

„Já, að teknu tilliti til markmiða Vestia um hámörkun endurheimta við ráðstöfun eignanna, skal eignarhald vara í eins stuttan tíma og kostur er. Rétt er að árétta að Vestia er sérstök afkomueining hjá Landsbankanum og hefur verið lagt til eigið fé frá bankanums em gerð er ávöxtunarkrafa á. Aðkoma Vestia að fjárfestingum er því með sama hætti og ef um væri að ræða ótengdan fjárfesti," segir Steinþór.