Vestmannaeyjabær tók út rétt rúman milljarð króna sem sveitarfélagið átti í peningamarkaðssjóði Kaupþings um mánuði áður en gjalddaga peningamarkaðsbréfanna var. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.

Slitastjórn Kaupþings telur þessa ráðstöfun ekki eðlilega og hefur stefnt bænum og farið fram á að greiðslunni verði rift eins og fram kom í gær. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, neitar því að hafa búið yfir innherjaupplýsingum og segir að bærinn hafi fengið sömu þjónustu og aðrir aðilar.

„Bærinn gerði það bara eins og allir aðrir nálgast þá peninga sem fólk á í bönkum. Við einfaldlega sendum tölvupóst og peningarnir voru greiddir út. Enda lék enginn vafi á því að Vestmannaeyjabær ætti þessa peninga og Kaupþing taldi okkur á þeim tíma hafa fullt aðgengi að þeim. Enda væri það alveg fráleitt að halda að bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, sálfræðingurinn, eða þeir starfsmenn sem undir honum starfa hefðu upplýsingar innan úr bankakerfinu umfram bankakerfið sjálft," segir Elliði samkvæmt frétt RÚV um málið

Samkvæmt slitastjórn Kaupþings var ekkert tilefni til að ætla að venja væri í gildi milli Kaupþings og bæjarins að bærinn gæti tekið peningana út fyrir gjaldagann. Slíkt hafi aldrei tíðkast áður.

Í stefnunni er farið fram á að bærinn endurgreiði fjárhæðina og er vísað til ákvæðis í lögum um gjaldþrotaskipti, þar sem fram kemur að krefjast megi riftunar á greiðslum síðusti sex mánuði fyrir gjaldþrota ef greitt var fyrr en eðlilegt var. Ljóst er að ef Vestmannaeyjabær tapar málinu þá mun það kosta bæinn talsverðar fjárhæðir.