Ákveðið hefur verið að hin árlega Vestnorden ferðakaupstefna verði haldin á Akureyri næsta haust. Fer hún fram í nýja menningar- og ráðstefnuhúsinu Hofi, og verður væntanlega einn fyrsti viðburðurinn í húsinu eftir opnun þess.

Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu en dagsetning kaupstefnunnar er 14.-16. september.

Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands, standa að kaupstefnunni og verður Vestnorden á Akureyri sú 25. í röðinni. Kaupstefan er haldin til skiptis af löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi.

Vestnorden er jafnan stærsti viðburðurinn í ferðaþjónustu hérlendis en um 560 þátttakendur voru skráðir síðast þegar kaupstefnan var haldin á Íslandi. Síðast var Vestnorden haldin á Akureyri árið 2002, þá í Íþróttahöllinni. Ferðamálastofa er aðili að NATA fyrir Íslands hönd og sér um framkvæmd Vestnorden þegar kaupstefnan er haldin hér á landi.

Sjá nánar á vef Ferðamálastofu.