Fastir vextir á húsnæðislánum í Bandaríkjunum hafa ekki verið lægri í fimmtíu ár. Í gær voru fastir vextir á húsnæðislánum til þrjátíu ára 4,15% og höfðu lækkað úr 4,32% frá fyrri viku. Að meðaltali eru fastir vextir á húsnæðislánum þar í landi 5,3% af því er fram kemur í frétt Financial Times.

Fjöldi Bandaríkjamanna ætla að nýta sér þessa lágu vexti til endurfjármögnunar á húsnæðislánum. Frá síðustu viku hafa umsóknir um endurfjármögnun til banka aukist um 4,1% og hefur í raun aukist allt frá byrjun júlímánaðar. Í frétt Financial Times segir að einn stóru bankanna í Bandaríkjunum hafi hafnað 25% umsókna.

Bankastjóri Valley Nationoal Bankcorp í New Jersey segir að í sínum banka hafi umsóknum fjölgað úr 200 á mánuði í 700-1.000 á mánuði og geti lántakar að meðaltali sparað 300 dollara á mánuði við endurfjármögnun.