„Með fyrsta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er ljóst að horfið hefur verið frá árangursríkri stefnu fyrri ríkisstjórnar í ríkisfjármálum,“ að mati þingflokks VG sem hefur sent frá sér gagnrýni á fjárlög ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Þingflokkurinn segir ljóst af fjárlögunum að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fylgja nánast hreinræktaðri niðurskurðarstefnu sem reynsla undanfarinna ára í Evrópu hafi sýnt að geri illt verra. Það geri ekki ráð fyrir raunverulegum afgangi af rekstri ríkissjóðs á næstu þremur árum, ekkert svigrúm verði til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og enn síður til þess að hefja nauðsynlega uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu, menntakerfinu og innviðum samfélagsins.

Þá gagnrýnir þingflokkurinn að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir verulegum samdrætti á opinberum fjárfestingum, hætt verði við stórar byggingarframkvæmdir eða þeim frestað. Að auki staðfesti fjárlagafrumvarpið að ríkisstjórnin hafi horfið frá þeim áherslum fyrri ríkisstjórnar að auka fjölbreytni og nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

„Frumvarpið gerir ráð fyrir miklum niðurskurði á framlögum til rannsókna og tækniþróunar og stuðningi við ferðaþjónustu og hinar skapandi greinar. Að auki er dregið úr sérstökum stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki sem skipt hefur sköpum á undanförnum árum og sóknaráætlanir landshlutanna slegnar af,“ segir í tilkynningu frá þingflokki VG.