Þingflokkur Vinstri grænna hefur unnið nefndarálit og breytingatillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og tengda bandorma. Flokkurinn hefur lagt til að tekjur ríkissjóðs verði auknar um tæpa tíu milljarða króna á næsta ári og um 20 milljarða árið 2015. Á meðal þess sem VG leggur til er að fallið verði frá lækkun tekjuskatts í miðþrepi sem skili 5 milljörðum króna, hækkun á virðisaukaskatti á hótelgistingu ú 7% í 14% skili 1,8 milljörðum og að hækkun á sérstöku veiðigjaldi og leigugjaldi á makríl skili 4,7 milljörðum króna. Þá leggur VG til að framlenging á auðlegðarskattinum skili ríkissjóði 9 milljörðum króna.

Þá leggur VG til að fallið  verði frá innheimtu legugjalda á sjúklinga á sjúkrahúsum og útvarpsgjald verði látið renna óskipt til RÚV.

Aukin útgjöld ríkisins, samkvæmt tillögum VG, hljóða upp á tæpa 11 milljarða króna. Helstu útgjaldaliðir eru 5 milljarða framlög til heilbrigðismála, 300 milljóna aukin framlög til skapandi greina, rúmar 700 milljónir til rannsóknasjóðs, tækniþróunarsjóðs og markáætlunar, rúmur hálfur milljarður fari í að lengja fæðingarorlof og  800 milljónir til byggðartengdra verkefna og jöfnunar búsetuskilyrða. Þá leggur VG til að 600 milljónir renni til RÚV og að hálfur milljarður króna verði lagður í Þróunarsamvinnu.