Starfsmaður Landsbankans, sem Viðskiptablaðið ræddi við rétt í þessu, er gáttaður á aðstæðunum sem margir starfsmanna bankans búa nú við.

„Það var þannig að í morgun kom póstur til allra starfsmanna, þar sem sagt var að kynning yrði á nýja bankanum klukkan 9. Þar var talið upp hvaða svið myndu tilheyra hinum nýja banka og hvaða svið yrðu lögð niður,“ segir starfsmaðurinn.

Samkvæmt heimildamanninum, sem starfar á einu þeirra sviða sem ekki tilheyrir nýja bankanum, er ekkert fyrir starfsmenn þeirra sviða að gera og ekki hægt að eiga nein viðskipti: „Við sitjum bara hérna og bíðum.“

Væntanlega búin að fá síðasta launaseðil sinn frá Landsbankanum

Starfsmaðurinn segir að samkvæmt nýjum neyðarlögum þurfi ekki að standa við neina samninga við starfsmenn bankans.

„Við erum væntanlega búin að fá okkar síðasta launaseðil frá Landsbankanum.“

Samkvæmt lögunum þarf ríkið ekki að borga starfsmönnum uppsagnarfrest né uppsöfnuð laun og munu þeir starfsmenn sem sagt verður upp væntanlega þurfa að sækja um laun sín til ábyrgðarsjóðs launa.

Sama hvernig það verður er ljóst, að sögn heimildamanns, að starfsmenn þeirra sviða sem tilheyra ekki nýjum banka muni þurfa að ganga fast á eftir næstu launagreiðslu.

Margir starfsmenn Landsbankans búa nú við gríðarlega óvissu með laun sín og önnur kjör. Það sem gerir aðstæðurnar enn verri er að margir starfsmanna áttu hlutabréf og aðrar eignir í bankanum sem mikil óvissa ríkir um.

Starfsmenn þeirra sviða sem lögð verða af hanga í lausu lofti og vita ekkert og fá engar upplýsingar. Þeir geta ekki leitað til yfirmanna sinna, því þeir virðast engar upplýsingar hafa heldur.

Sá starfsmaður sem blaðamaður ræddi við sagði að þau fengju upplýsingar um stöðu sína fyrst og fremst í gegn um fjölmiðla.

„Við eigum á upptöku orð Viðskiptaráðherra þar sem hann segir að allir almennir starfsmenn Landsbankans haldi sínum kjörum og það sé enginn að fara að missa vinnuna,“ segir starfsmaðurinn.

En nú er staðan önnur og þó að formlegar uppsagnir hafi ekki farið fram, er óvissan gríðarleg.

Starfsmönnum sýnd vanvirðing

Eins og staðan er núna hefur verið stofnaður nýr banki utan um innlenda starfsemi bankans eins og greint hefur verið frá. Önnur starfsemi er í höndum skilanefndar FME. „Þetta er allt í höndum skilanefndarinnar og við fáum engin svör.“

„Mér finnst svo mikill óþarfi að sýna okkur þá vanvirðingu að geta ekki sagt okkur neitt,“ segir starfsmaðurinn og að starfssamningurinn sem fólk hafi skrifað undir sé í raun ekki nokkurs virði í dag.

Almennt um stöðuna segir starfsmaðurinn það hafa verið mikil vonbrigði að Kaupþing fór líka. „Þeir eru búnir að vera helstu keppinautar okkar í mörg ár en samt hefði maður viljað sjá þá lifa áfram.“