*

föstudagur, 5. mars 2021
Innlent 14. maí 2020 09:52

Viaplay sýnir þýska boltann í sumar

Þýski fótboltinn hefst að nýju á laugardaginn. Viaplay sýnir beina útsendingu frá öllum leikjum í sumar.

Ritstjórn
Alfreð Finnbogason snýr aftur á laugardaginn í viðureign Augsburg og Wolfsburg.
Aðsend mynd

Streymisveitan Viaplay mun sýna alla leiki efstu deildar þýska fótboltans í sumar. Flautað verður til leiks á laugardaginn en þýska deildin er fyrsta stóra fótboltadeildin í Evrópu sem snýr aftur til leiks eftir að heimsfaraldurinn skall á. 

Þann 1. apríl síðastliðinn hóf Nordic Entertainment Group (NENT Group) að bjóða upp á streymisþjónustuna Viaplay á Íslandi. Hingað til hefur einungis sérframleitt efni Viaplay, kvikmyndum, þáttaseríum og barnaefni staðið Íslendingum til boða. Þýska Bundesligan bætist nú við úrvalið. 

,,Það verður frábært að fá fótboltann aftur í gang og gaman að geta loks boðið Íslendingum upp á eitthvað af þeim stórkostlegu íþróttum sem NENT Group hefur tryggt sér útsendingaréttinn að. Auk Bundesligunnar geta Íslendingar einnig horft á NASCAR-kappaksturinn á sunnudaginn og vonandi einnig Formúlu 1 og Bundesligu-handboltann fljótlega“, er haft eftir Kim Mikkelsen, yfirmanni íþróttasviðs NENT, í tilkynningu.

Íþróttapakki Viaplay verður fáanlegur frá og með 15. maí og mun kosta 1599 krónur á mánuði. Kvikmynda- og þáttaseríupakkinn kostar 599 krónur á mánuði. Viaplay verður, eins og á öðrum mörkuðum NENT Group, aðgengilegt viðskiptavinum á Íslandi með beinum áskriftum eða í samstarfi við þriðja aðila.