Ákveðið hefur verið að flýta viðbótarstækkun Norðuráls á Grundartanga en verkefnið mun auka framleiðslugetu álversins úr 220.000 tonnum á ári í 260.000 tonn. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið á fjórða ársfjórðungi 2007 segir í tilkyningu félagsins.

Landsvirkjun hefur fallist á að veita umframorku tímabundið til að flýta gangsetningu stækkunarinnar og gera Norðuráli þannig kleift að nýta þjónustu verkfræðifyrirtækja og verktaka sem best.

Landsvirkjun áætlar að geta afhent orku frá því í júlí 2007 og fram í nóvember 2008, eða lengur, en þá er þess vænst að orka verði tiltæk frá Orkuveitu Reykjavíkur samkvæmt fyrirliggjandi langtímasamningi Norðuráls og OR.

Getum einbeitt okkur fyrr að Helguvík

?Við þökkum Landsvirkjun fyrir að vinna með okkur svo við getum tekið þetta skref í stækkun álversins á Grundartanga fyrr en áður var kunngert," segir Logan W. Kruger, forstjóri Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls. ?Þessi tilhögun mun gera okkur kleift að einbeita okkur fyrr en ella að fyrirhugðu verkefni í Helguvík og ætti að auðvelda okkur að nýta áfram krafta hins hæfa og öfluga íslenska teymis sem hefur staðið sig svo vel á Grundartanga. Við höfum gert ráð fyrir að þróa Helguvíkurverkefnið í áföngum og teljum að með því móti lögum við okkur ekki aðeins að tímasetningum orkuframboðs, heldur geri það okkur einnig kleift að nýta íslenska þekkingu og mannauð eins vel og kostur er. Jafnframt teljum við að slík þrepaskipt framvinda þjóni best hagsmunum íslensks efnahagslífs."

Álver Norðuráls á Grundartanga hafði fram á þetta ár 90.000 tonna framleiðslugetu. Í febrúar sl. hófst þar viðbótarframleiðsla á áli vegna stækkunar sem mun auka framleiðslugetu álversins í 220.000 tonn á fjórða ársfjórðungi 2006.