Einar Sigurðsson, forstjóri MS, segir starfsemi MS fyrst og fremst taka mið af hagsmunum neytenda og bænda. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann telur niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í máli MS vera ranga og að félagið skuldi neytendum ekki afsökunarbeiðni.

Samkeppniseftirlitið sektaði MS um 370 milljónir króna fyrir brot á 11. gr. samkeppnislaga með því að selja hrámjólk á 17% hærra verði til annarra en aðila sem tengdust MS. Í niðurstöðu Samkeppniseftirlitið sagði að brotið væri alvarlegt og „til þess fallið að skaða á endanum hagsmuni neytenda.

Biðjast afsökunar, ef þeir gera eitthvað rangt

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var Einar spurður að því hvort hann teldi neytendur verðskulda afsökunarbeiðni vegna brota félagsins á samkeppnislögum. Hann sagði svo ekki vera, enda hefði Samkeppniseftirlitið mistúlkað samkeppnislög og að niðurstaða þess væri röng. „Við eigum allt undir tryggð neytenda," sagði Einar. „Við teljum hinsvegar í þessum máli að Samkeppniseftirlitið fari villu vegar og munum áfrýja niðurstöðu eftirlitsins," bætti hann við. Á þessu stigi liggi endanleg niðurstaða ekki fyrir.

Aðspurður segir Einar að hinni 370 milljón króna sekt verði ekki velt út í verðlag. „Við höfum hag neytenda fyrst og fremst fyrir brjósti.“ Hann segir viðskiptafyrirkomulag MS falla vel að hagsmunum neytenda og bænda.