Opið málþing um gervigreind var haldið í gær á vegum landsnefndar UNESCO í samvinnu við Háskóla Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra opnaði málþingið og fór meðal annars yfir helstu áhættuþætti og áskoranir tengda gervigreind sem og næstu skref fyrir íslensk stjórnvöld.

„Við munum sjá að störf eru að fara að breytast. Það eru einhver störf sem munu verða úrelt og við höfum séð það í öllum tæknibreytingum, það verður mikil aðlögun að þessari nýju tækni,“ sagði ráðherra í ávarpi sínu.

Hún segir að stjórnvöld þurfi að mæta þessari þróun með því að vera nokkrum skrefum á undan henni. Það þyrfti til að mynda að bjóða upp á endurmenntun fyrir þau störf sem eru ekki líkleg til að vera til staðar í framtíðinni.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir ráðherra að búast megi við fækkun í sérfræðistörfum framtíðarinnar eftir því sem gervigreind verður algengari í samfélaginu. Hún telur hins vegar að gervigreind muni einnig koma til með að skapa ný störf á vinnumarkaðnum.

„Við getum til dæmis borið þetta saman við landbúnað. Nú eru mun færri sem starfa við landbúnað en hann framleiðir hins vegar mun meira. Það sama á við um sjávarútveginn. Sjómenn dagsins í dag eru líka færri en þeir búa yfir mikilli tækniþekkingu og reynslu og skapa meiri verðmæti.“

„Það er verið að tala um að það geti átt sér miklar framfarir í heilbrigðisvísindum"

Ráðherra segir að svokölluð sérfræðistörf sem byggjast á því að greina upplýsingar og undirbúa fyrir löggjöf gætu átt undir högg að sækja í framtíðinni. Gervigreindin mun flýta fyrir slíkri vinnu en sú þróun geti líka verið jákvæð.

„Það er verið að tala um að það geti átt sér miklar framfarir í heilbrigðisvísindum þar sem gervigreind mun geta tekið saman niðurstöður fjölda greina og flýtt fyrir allri rannsóknarvinnu.“

Ráðherra ítrekar einnig mikilvægi gagnrýnnar hugsunar og djúps lesskilnings. Hún segir að án vandaðra blaðamennsku og ritstýrðra miðla sé hægt að setja af stað alls konar hluti sem enginn ber ábyrgð á.

„Ég held að áhugi á því að vera með áskriftir eða leshæft efni muni aukast þar sem það er svo ofboðslega mikið í boði og maður hefur bara svo takmarkaðan tíma. Það verður þannig meiri leitni í það að leita eftir efni hjá vönduðum fjölmiðlum,“ segir ráðherra.