Á fundi forsætisnefndar í gær var farið yfir myndbandsupptöku af því þegar fámennur hópur stóð í mótmælum fyrir utan þinghúsið fyrir skömmu þegar þingvörður sneri niður einn mótmælendanna. „Það fór ekki framhjá nokkrum manni sem skoðaði upptökuna að viðbrögð þingvarðarins og þingvarðanna voru mjög eðlileg,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í samtali við Morgunblaðið .

Mótmælendahópurinn kom saman í tilefni af því að 888 dagar voru liðnir síðan Alþingi samþykkti að hefja rannsókn á einkavæðingu bankanna. Þingmenn Pírata óskuðu í kjölfarið eftir rannsókn málsins, en hún fór fram og hittist forsætisnefndin í gær til að fara yfir málið og skoða gögn úr eftirlitsmyndavél Alþingis.

„Þarna sést mjög glögglega að atvikið sem um ræðir var þannig að maður kom aðvífandi og réðist á þingvörðinn sem hratt honum vitaskuld af höndum sér. Aðhafðist ekkert frekar en hélt áfram að þrífa burtu krotið á gangstéttinni við þinghúsið,“ segir Einar.