Tryggingasjóður innstæðueigenda í Bretlandi (FSCS) hefur þegar greitt út um 4,5 milljarða punda, um 830 milljarða króna, vegna innstæðna sem voru inni á Edge-reikningum hjá Kaupthing Singer&Friedlander (KSF), á Icesave-reikningum útibús Landsbankans og inni á reikningum Heritable bankans, sem var dótturfélag Landsbanka Íslands.

Þar er ekki tekið tillit til þeirra 2,35 milljarða punda,  um 437 milljarða króna, sem ríkissjóður Bretlands greiddi út til Icesave-reikningseigenda vegna lágmarkstryggingar á innstæðum. Þá upphæð reyna Bretar nú að sækja hjá íslenska ríkinu í hinu vel þekkta Icesave-máli. Þetta kemur fram í ársskýrslu FSCS 2009/2010.

Þar segir einnig að sjóðurinn fái stóran hluta þess höfuðstóls sem lagður hefur verið út til baka, eða um samtals um 76% upphæðarinnar. Það þýðir að fjórðungur hennar, um 200 milljarðar íslenskra króna, er að öllum líkindum tapaður ef miðað er við gengi dagsins í dag.

Fjármagnað með láni frá breska ríkissjóðnum

FSCS hefur þurft að greiða út innstæðutryggingar vegna fimm fjármálafyrirtækja síðan í bankahruninu. Þrjú þeirra voru í eigu íslenskra aðila. Líkt og tryggingasjóður innstæðueigenda á Íslandi (TIF) þá átti sjóður Breta alls ekki næga fjármuni til að greiða út innstæðutryggingarnar, en Bretar tryggðu innstæður upp að 50 þúsund pundum, 9,3 milljónum króna, á hvern reikning.

FSCS
FSCS
© vb.is (vb.is)

Myndina má stækka með því að smella á hana.


Því lánaði breska ríkið sjóðnum rúmlega 20 milljarða punda, um 3.800 milljarða króna, til að hann gæti staðið við greiðslur vegna lágmarkstrygginganna þegar reikningar hinna föllnu banka voru fluttir til annarra fjármálafyrirtækja.

Innsend grein Sigurðar Einarssonar

Sigurður Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformaður Kaupþings, segir í innsendri grein í Fréttablaðinu í dag að „ Íslenskir fjölmiðlar hafa á undanförnum dögum margtuggið það upp úr breskum fjölmiðlum að tjón breskra skattgreiðenda af Kaupthing Edge reikningum og starfsemi Kaupthing Singer Friedländer þar í landi eigi eftir að leika á milljörðum punda. Engin tilraun er gerð til að sannreyna þessar staðhæfingar heldur látið nægja að endurflytja þær sem staðreyndir. Hið rétta er að enn er óljóst hvort eitthvert tjón verður af starfseminni.“

Ársskýrslu FSCS má nálgast hér .

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.