Viðræður Magma Energy Corp og íslenskra lífeyrissjóða um kaup sjóðanna á hlut í HS Orku eru „langt komnar“. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu Magma sem send var út fyrr í dag.

Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun febrúar að stærstu lífeyrissjóðir landsins hefðu skipað þriggja manna nefnd til að leggjast yfir það hvort þeir eigi að kaupa að minnsta kosti 25% hlut í HS Orku. Nefndin, undir formennsku Ólafs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Stafa lífeyrissjóðs, var á þeim tíma að skoða verðmat sem gert var á fyrirtækinu og hvort það væri hagkvæmt fyrir sjóðina að verða eigendur að HS Orku.

Magma á í dag 98,53% hlut í HS Orku og hefur greitt um 32 milljarða króna fyrir þann eignarhlut. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að Magma sé tilbúið að selja hlut til lífeyrissjóðina á sama gengi og fyrirtækið keypti hlutina á.

Í tilkynningunni er haft eftir Ross Beaty, stjórnarformanni og forstjóra Magma, að hann og aðrir stjórnendur Magma séu „langt komnir í viðræðum  við hóp íslenskra lífeyrissjóða um sölu á minnihluta í HS Orku“.

Tilkynninguna er hægt að lesa í heild sinni hér