Bandalag háskólamanna lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu kjarasamningsviðræðna við ríkið eftir að verkfallsaðgerðir hafa staðið í sex vikur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá BHM um stöðu mála í kjarasamnigsviðræðum. Þar segir að viðræður hafi ekki þokast áfram á fundi fyrr í dag og að ekki verði boðað til nýs fundar með ríkinu fyrr en eftir helgi.

Þá fundaði samninganefnd BHM í kjölfarið um stöðuna og lagði mat á aðgerðir. Það er mat nefndarinnar að þótt fullt tilefni sé til að ganga harðar fram í verkfallsaðgerðum verði það ekki gert að svo stöddu. Sú ákvörðun er tekin í trausti þess að á næsta fundi samninganefndar BHM með ríkinu, sem verður á mánudaginn kl.13.00, verði tekin sýnileg skref í átt að lausn deilunnar.