Viðskiptaafgangur á síðastliðnu ári var sá mesti frá upphafi mælinga og er það að mestu að þakka sögulega miklum afgangi af þjónustuviðskiptum. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka á viðskiptajöfnuði.

Sé tekið mið af árinu 2016 í heild mælist afgangur af viðskiptajöfnuði 193,5 milljörðum króna sem nemur um 8% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins. „Hefur viðskiptajöfnuður aldrei áður mælst eins hagstæður eins og áður segir, og er útkoman jafnframt betri en við höfðum reiknað með (6-7% af VLF) og fjölluðum um í Morgunkorni í vikunni. Einnig er þetta hagstæðari niðurstaða en Seðlabankinn hafði áætlað í febrúar sl., en hann hafði áætlað að afgangurinn yrði 6,4% af VLF. Þegar lá fyrir að þjónustujöfnuður væri hagstæður um 260,3 ma. kr. og að halli á vöruskiptum væri 101,5 ma. kr. á árinu. Þá var jöfnuður frumþáttatekna hagstæður um 51,0 ma. kr. og halli af rekstrarframlögum upp á 16,4 ma. kr,“ segir í frétt Greiningar Íslandsbanka.

„Einnig hjálpar til að hrein erlend staða þjóðarbúsins var jákvæð í lok 4. ársfjórðungs, en hún hefur tekið miklum breytingum til batnaðar frá því sem áður var þegar hún mældist neikvæð um tugi prósenta af vergri landsframleiðslu. Þá voru viðskiptakjör hagstæð á síðasta ári. Hækkaði gengi krónunnar mikið á síðasta ári og var árið metár í því sambandi. Hækkunina má rekja að stórum hluta til hagstæðra utanríkisviðskipta þjóðarbúsins,“ segir í greiningunni.

Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 44,7 milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi, eins og áður hefur verið fjallað um. Þegar lágu fyrir tölur um að þjónustujöfnuður væri hagstæður um 43,4 milljarða króna og að halli væri á vöruviðskiptum upp á 13,3 milljarða króna á fjórðungnum. Þetta er 31,4 milljörðum króna meiri afgangur af viðskiptajöfnuði en mældist á 4. ársfjórðungi 2015 en þá mældist 13,3 milljarða króna afgangur.