Fréttablaðið er í fyrsta sinn með undir 50% lestur síðan snemma árs 2002, en blaðið er þó áfram mest lesna dagblað landsins.Þetta kemur fram í nýrri prentmiðlakönnun Gallup. Lestur Fréttablaðsins er nú 49,9% en það hefur lækkað nokkuð stöðugt síðan árið 2011 en þá var lestur blaðsins um 60%.

Lestur DV tekur stökk en lestur blaðsins mældist nú 9,5% og er sá mesti síðan nýir eigendur tóku við í desember 2014.

Lestur Viðskiptablaðsins hefur aukist töluvert það sem af er ári  og í nóvember mældist lestur blaðsins 13,4%. Þetta er mesti lestur sem blaðið hefur verið með síðan það kom aftur inn í mælingar Gallup árið 2011.

Lestur Morgunblaðsins er nú 28,4% og helst nokkuð stöðugur. Lestur blaðsins hefur þó minnkað á undanförnum árum en árið 2011-2012 var lestur blaðsins um 32% til 33%.

Fréttatíminn bætir lítillega við lestur milli mánaða, en lestur hans er nú 37,8%. Nýlega var tilkynnt um nýja eigendur Fréttatímans en fjárfestahópur undir forystu Gunnars Smára Egilssonar hefur keypt blaðið.