Viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 49,6 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi í ár samanborið við 471, milljarða halla fjórðunginn á undan. Afgangur af vöruskiptum við útlönd var 12,8 milljarðar og 12 milljarða afgangur var af þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hins vegar neikvæður um 74,4 milljarða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins á öðrum ársfjórðungi 2012.

„Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.215 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 13.505 milljörðum. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 9.290 milljarða og hækka nettóskuldir um 144 milljarða á milli ársfjórðunga. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2.583 milljörðum og skuldir 3.639 milljörðum og var hrein staða þá neikvæð um 1.056 milljarða og hækka nettóskuldir um 177 milljarða á milli ársfjórðung,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.