Hringdu hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem lagt var fyrir Sýslumanninn í Reykjavík að leggja lögbann við þeirri athöfn félagsins að veita viðskiptavinum sínum aðgang að vefsíðunum deildu.net og PirateBay.

Hringdu tekur sérstaklega fram að það muni ekki loka fyrir aðgengi viðskiptavina sinna að síðunum fyrr en formleg ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík liggur fyrir. Verið er að skoða málið af hálfu félagsins með tilliti til kæru til Hæstaréttar.

„Það kann að reyna á gildi þessa úrskurðar ef úrskurðurinn verður kærður til Hæstaréttar og það kann einnig að reyna á lögmæti lögbannsins í staðfestingarmáli í framhaldi ákvörðunar sýslumanns um að leggja á lögbann. Það er ljóst að aðgerðir sem þessar samrýmast ekki stefnu Hringdu í netfrelsismálum en fjarskiptafyrirtækið hefur lagt mikla áherslu á að viðskiptavinir þess eigi rétt á óhindruðum aðgangi að internetinu.” segir Kristinn Pétursson, forstöðumaður sölu- og þjónustusviðs Hringdu.