Minniháttar hreyfing var á gengi bréfa í flestum félögum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Kvika var það félag sem hækkaði mest, um tæp tvö prósent, en mesta lækkunin var í boði Reita eða 3,38%.

Viðskipti í dag voru nokkur eða á fjórða milljarð króna. Mest viðskipti áttu sér stað í Marel, 423 milljónir, en viðskipti í Reitum, Símanum, Festi, TM og VÍS voru öll yfir 300 milljónum.

Sem fyrr segir hækkaði Kvika um 1,95% en þar á eftir fylgdu Sýn með 1,3% hækkun og Iceland Seafood sem hækkaði um 1,11%. Arion, Brim, Festi, VÍS, Marel og Icelandair hækkuðu öll einnig en hækkun þeirra var í öllum tilfellum undir einu prósenti.

Á hinum endanum skáru Reitir og Reginn sig úr en síðarnefnda félagið lækkaði um 2,4%. Eimskip lækkaði um 1,4% og Eik um 1,35%. Sjóvá, Skeljungur og Hagar lækkuðu einnig lítillega og þá datt TM niður um 0,91% í 322 milljóna viðskiptum.

Origo, Heimavellir og Síminn stóðu í stað. OMXI10 vísitalan lækkaði um 0,17%.