*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 4. nóvember 2020 17:55

Viðsnúningur í rekstri Sýnar

Sýn fór úr 71 milljóna tapi fyrir ári í 8 milljóna hagnað á þriðja ársfjórðungi. Úr hagnaði í 402 milljóna tap fyrstu 9 mánuðina.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar.
Eva Björk Ægisdóttir

Sýn hagnaðist um 8 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi ársins sem er talsverður viðsnúningur frá sama tíma fyrir ári þegar félagið tapaði 71 milljón króna. Að teknu tilliti til þýðingarmunar og áhættuvarna fór afkoman úr því að vera jákvæð um 44 milljónir fyrir tímabilið fyrir ári í 7 milljónir nú.

Tekjur félagsins jukust um 3%, úr tæplega 4,9 milljörðum í rétt rúma 5 milljarða króna á tímabilinu á milli ára, meðan rekstrargjöldin jukust um 4,1%, úr tæplega 4,7 milljörðum í tæplega 4,9 milljarða króna. Framlegðin dróst saman um 6,8%, úr 1.745 milljónum í 1.627 milljónir króna.

EBITDA nam 1.593 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi í samanburði við 1.623 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 31,7% á þriðja ársfjórðungi 2020 samanborið við 33,3% á 3F 2019.

Rekstrarhagnaðurinn (EBIT) dróst þar með saman um nærri fjórðung, 23,7%, úr 186 milljónum í 142 milljónir króna, en tap var á rekstrinum fyrir skatt, þó það hafi dregist saman um 96%, úr 93 milljónum í 4 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri lækkaði um 15%

Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1.055 milljónum króna samanborið við 1.235 milljónir króna á sama tímabili árið áður, sem er lækkun um 15%.

Heildarfjárfestingar félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins námu 2.345 milljónum króna þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 764 milljónir króna og fjárfesting í sýningarréttum 1.581 milljónir króna.

Fjármögnunarhreyfingar á fyrstu níu mánuðum ársins voru neikvæðar um 1.932 milljónir króna á móti 600 milljónum króna á sama tímabili árið 2019 sem er aukning um 1.332 milljónir króna.

Söluhagnaður dótturfélags inn í hagnaðinum fyrir ári

Eigið fé félagsins lækkaði um 4,6% frá ársbyrjun til loka 9. mánaðar ársins, úr tæplega 8,8 milljörðum króna í 8,4 milljarða króna, meðan skuldirnar drógust saman um 5,3%, úr 23,2 milljörðum í tæplega 22 milljarða. Þar með lækkuðu eignirnar úr 32 milljörðum í tæpa 30,4 milljarða króna, og eiginfjárhlutfallið jókst eilítið, úr 27,5% í 27,6%.

Tap á fyrstu níu mánuðum ársins nam 402 milljónum króna samanborið við 384 milljóna króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Inni í hagnaði fyrstu níu mánuði ársins 2019 var söluhagnaður að fjárhæð 817 milljónir króna vegna sölu á færeyska dótturfélaginu Hey.

Tekjur á fyrstu níu mánuðum ársins hækkuðu um 497 milljónir króna milli ára, eða um 3%, tæplega 14,9 milljörðum í tæplega 15,4 milljarða króna. Rekstrargjöldin á tímabilinu jukust um 3,7%, úr ríflega 14,6 milljörðum í tæplega 15,2 milljarða króna.

EBITDA á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 nam 4.312 milljónir króna og hækkaði um 212 milljónir króna miðað við sama tímabil 2019. EBITDA hlutfallið er 28% á fyrstu níu mánuðunum 2020 samanborið við 27,6% á sama tímabili 2019. Rekstrarhagnaðurinn (EBIT), lækkaði um 21,3%, úr 235 milljónum króna í 185 milljónir króna.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar segir að rekstur félagsins haldi áfram að batna.

„Það eru áfram áskoranir á auglýsingamarkaði og reikitekjur féllu nær alfarið út í uppgjörinu. Á móti kemur að aðrir liðir eru á uppleið. Ánægja viðskiptavina er að batna hratt, sem skiptir mestu máli til lengri tíma litið, og við sjáum fram á fjölgun viðskiptavina,“ segir Heiðar.

„Í hverju árshlutauppgjöri þessa árs höfum við fjallað um þá stefnu okkar að minnka fastan kostnað fyrirtækisins. Að útvista meiru, breyta föstum kostnaði í breytilegan, og einfalda reksturinn. Nú hillir undir mikilvægar breytingar þar að lútandi. Með undirritun samnings um einkaviðræður um sölu á óvirkum hluta farsímakerfisins erum við bjartsýn á að ná að losa um mikil verðmæti sem ekki nýtast sem skyldi í rekstri. Við sjáum fram á um 6 milljarða söluhagnað án þess að framlegð (EBITDA) breytist að nokkru ráði. Í þessum viðskiptum seljum við óvirka innviði farsímakerfisins á um 200 af þeim ríflega 600 fjarskiptastöðum sem við eigum farsímabúnað á.

Innviðir fyrirtækisins verða áfram sterkir. Til viðbótar við öflugt farsímakerfi sem þjónustar yfir 99,8% landsmanna með háhraða tengingu eigum við landsdekkandi fastlínukerfi, landsdekkandi sjónvarps- og útvarpsdreifikerfi og annað af tveimur IPTV kerfum landsins.  Félagið er þannig með virkan búnað á yfir 800 stöðum um land allt.

Það er mikilvægt að laga efnahagsreikning fyrirtækisins til að búa það í haginn fyrir framtíðina. Langtímaskuldir, utan leiguskuldbindinga, lækka á milli uppgjöra og nema 10,4 milljörðum. Við sölu á innviðum er ljóst að fyrirtækið getur orðið mjög skuldlétt.

Það ríkir óvissa um 5G-væðingu vegna afskipta stjórnvalda af framleiðendum fjarskiptabúnaðar og uppbygging er í raun þegar farin að tefjast vegna þeirrar óvissu, sem aftur bitnar á hagvexti framtíðar. Búnaður allra framleiðenda á vitaskuld að lúta sömu ströngu öryggiskröfunum, annað væri falskt öryggi og hrein mismunum á samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði.“