Íslenska auglýsingastofan hefur hlotið viðurkenningu fyrir árangur þar sem mestu skipti óvenjuleg og skapandi nálgun við notkun samfélagsmiðla.

Íslenska auglýsingastofan var valin auglýsingastofa ársins í Evrópu fyrir skömmu og segir Atli Freyr Sveinsson framkvæmdastjóri verðlaunin fyrst og fremst viðurkenningu fyrir starfsfólk sitt. „Þetta er skemmtilegur og mikilvægur árangur, ekki eingöngu fyrir starfsfólk Íslensku auglýsingastofunnar heldur fyrir greinina hér á landi í heild og sýnir að það sem við erum að fást við hér á landi stenst því sem gert er erlendis fyllilega snúning.“

Eftirsóttustu auglýsingaverðlauniní Evrópu Atli segir Euro Effie verðlaunin vera ein eftirsóttustu auglýsingaverðlaun í Evrópu þar sem árangur af markaðsstarfi sem nær yfir fleiri en eitt Evrópuland er hafður til viðmiðunar en auk þess að vera valin stofa ársins hlaut Íslenska auglýsingastofan gullverðlaun fyrir árangur í notkun samfélagsmiðla og hin eftirsóttu Grand Prix verðlaun.

Allar stærstu og þekktustu auglýsingastofur í Evrópu, jafnt alþjóðlegu keðjurnar og þær sjálfstæðu, leggja mikið upp úr því að ná góðum árangri í Euro-Effie að sögn Atla. Þrátt fyrir að Íslenska sé stærsta auglýsingastofan á Íslandi sé hún lítil í samanburði við hinar stofurnar sem áður hafa hlotið titilinn „auglýsingastofa ársins“.