„Það eru svo margir nýir komnir í fjárlaganefnd og erum að fara í kurteisisheimsókn að kynna okkur stofnanirnar,“ segir Vigdís Hauksdóttir, en hún leiðir nú nýja þingmenn og aðra í fjárlaganefnd í heimsókn til Ríkisendurskoðunar, Hagstofunnar og Fjársýslu ríkisins.

Af níu nefndarmönnum í fjárlaganefnd eru fimm nýir á þingi. Það eru m.a. þau Haraldur Benediktsson og Valgerður Gunnarsdóttir frá Sjálfstæðisflokki, Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG, sem hefur verið varaþingmaður frá árinu 2004, Brynhildur Pétursdóttir frá Bjartri framtíð og Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Þá er Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd.

Vigdís segir mikilvægt að nefndin haldi uppi góðum samskiptum við stofnanirnar, ekki síst eftir að upp úr sauð á milli fjárlaganefndar og Ríkisendurskoðunar fyrir ári þegar meirihluti nefndarinnar samþykkti að láta Ríkisendurskoðun ekki fá frumvarp um fjáraukalög til umsagnar. Björn Valur Gíslason, sem þá var formaður fjárlaganefndar, sagði ekki ríkja traust á milli nefndarinnar og Ríkisendurskoðunar.