Vignir Rafn Gíslason, endurskoðandi Landsbanka Íslands hf. fyrir hrun hans og stjórnarformaður PWC, þarf að láta þrotabú Landsbanka Íslands í té vinnugögn vegna starfa hans í þágu félagsins. Hæstiréttur komst að þessari niðurstöðu í deilumáli milli Vignis Rafns og þrotabúsins.

Vignir Rafn kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. júlí á þessu ári þar sem fallist var á þá beiðni slitastjórnar Landsbanka Íslands að Vignir Rafn ætti að afhenda gögn og gefa skýrslu um störf sín fyrir bankann.

Árslöng deila

Fyrir tæplega ári fór slitastjórn Landsbanka Íslands fram á að Vignir Rafn afhenti öll gögn um bankann sem hann ætti eða byggi yfir. Þar á meðal voru gögn um samskipti við starfsmenn Landsbankans auk annarra gagna, sem voru m.a. til umfjöllunar í skýrslu sem norskir sérfræðingar unnu fyrir tilstilli Evu Joly. Hún var um tíma ráðgjafi embættis sérstaks saksóknara sem vinnur að rannsókn á málefnum er tengjast bankahruninu. Um þessa skýrslu var fjallað ítarlega á síðum Viðskiptablaðsins.

Deloitte til ráðgjafar

Vignir Rafn gagnrýndi það, þegar málið var til efnisumfjöllunar í héraði, að sérstakir ráðgjafar slitastjórnar Landsbanka Íslands væru frá samkeppnisaðila PWC, Deloitte. Vignir Rafn taldið það „óviðeigandi og ósiðlegt“ að þessir ráðgjafar yrðu viðstaddir skýrslutöku á vegum slitastjórnarinnar. Þá kom fram af hálfu Vignis Rafns að niðurstöður PWC og hans hafi tekið mið af þeim gögnum og upplýsingum sem þeir hafi haft aðgang að og legið fyrir á þeim tíma er vinnan fór fram. Meðal annars hafi margir ársreikningar stærstu skuldara Landsbankans verið áritaðir fyrirvaralausri endurskoðunaráritun Deloitte hf. sem PWC hafi ekki haft neinar forsendur til þess að rengja.

Nánar er fjallað um málið Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak undir Tölublöð.