Eitt skýrasta merki þess að óðaverðbólga hrjáir nú Venesúela er að verslunarmenn eru farnir að vigta seðlahrúgur í stað þess að telja peningamagnið sem er hreinlega orðið of mikið til þess að það borgi sig.

Osturinn meira virði

„Þetta er sorglegt,“ segir Humberto Gonzales verslunarmaður í austurhluta Caracas í viðtali við Bloomberg fréttastofuna, meðan hann skiptir út seðlahrúgunni fyrir ost á vigtinni.

„Á þessu stigi, held ég að osturinn sé meira virði.“

Allt að 1.500% verðbólga

Stjórnvöld hafa neitað því að birta reglulegar upplýsingar um verðlagsþróunina í landinu svo erfitt er að átta sig á hve slæm verðbólgan er, en hún er metin á bilinu 200 til 1.500%.

„Þegar þeir byrja að vigta seðlana, þá er það merki um óðaverðbólgu,“ segir Jesus Casique, fjármálastjóri hjá ráðgjafafyrirtækinu Capital Market Finance.

„En Venesúelabúar vita ekki hve slæmt þetta er því ríkisstjórnin neitar að birta tölurnar.“

Var einn sterkasti gjaldmiðill heims

Bólivarinn í Venesúela, sem eitt sinn var einn sterkasti gjaldmiðill heims, er nú orðinn verðlítill, og einföldustu kaup kalla á notkun hundruða seðla.

Neytendur setja hundruðir þeirra í íþróttatöskur áður en þeir stefna út í búð að versla og verslunarmenn stafla þeim upp í kassa og skúffur.

Stærsti seðillinn minna virði en 11 íslenskar krónur

Þar til nýlega hefur ríkisstjórnin neitað að prenta seðla með hærra verðgildi en 100 bólivara, en nú er hann minna virði en um 11 íslenskar krónur.

Án þess að mikið færi þó fyrir því hefur ríkisstjórnin nú fyrir nokkrum vikum byrjaði að kalla eftir tilboðum í gerð seðla með hærri upphæðir, eða 500,1.000, 5.000, 10.000 eða jafnvel 20.000 bólivara seðla.

Íhuga að bæta við núllum

Eiga þeir að koma tímanlega fyrir jólabónusa í landinu, en venjulega tekur það um fjóra til sex mánuði að fá nýja seðla, en til að spara tíma og pening hefur ríkisstjórnin íhugað að skipta einungis út litunum og bæta við núllum á þá seðla sem nú þegar er til hönnun fyrir.

Erfitt er fyrir íbúa í landinu að verða sér út um nægilega mikið af seðlum til að eiga dagleg viðskipti, hraðbankar tæmast hratt þó fyllt sé á þá oft á dag og svo eru rán og glæpir í landinu gríðarleg áhætta fyrir fólk sem gengur um með stórar seðlahrúgur á sér.