Almennt útboð á ríflega 37% hlut í fjarskiptafyrirtækinu Nova hefst klukkan 10 á föstudaginn og mun standa yfir í viku. Félagið verður í kjölfarið skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar og tekið til viðskipta þann 21. júní. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Niðurstöður útboðsins verða tilkynntar mánudaginn 13. júní, en tilboðsbókinni verður skipt upp í A og B hluta með fast verð 5,11 krónur á hlut í A-hluta en lágmark 5,11 í B-hluta, sem endanlega ræðst svo af þátttöku.

Lágmarksupphæð er 100 þúsund krónur en hámark 20 milljónir í A-bókinni. Tilboðsbók B tekur við tilboðum upp á 20 milljónir og yfir. Heimild er til allt að fimmtungsstækkunar útboðsins eða upp í 44,5% útgefins hlutafjár.

Ítarlega er rætt við Margréti um skráninguna og fyrirtækið sjálft í næsta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kemur út á morgun.