Gunnar og Herdís eru hjón á miðjum aldri sem fá einkasoninn heim úr ferð til Danmerkur. Hann er kominn með kærustu upp á arminn og faðir hans áttar sig á að stúlkan er væntanlega dóttir hans frá hliðarspori sem hann átti með annarri konu. Á þessa leið hljómar söguþráður Blóðbergs, nýrrar íslenskrar kvikmyndar sem verður frumsýnd nú í apríl.

„Blóðberg er gamanmynd með dramatískum undirtóni. Þetta er saga um venjulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum,“ segir Björn Hlynur Haraldsson, höfundur og leikstjóri myndarinnar.

Birni Hlyni þykir áhugavert að spegla íslenskan raunveruleika og útskýrir að rangfeðrun sé algengari hér á landi en annars staðar vegna fólksfæðarinnar. „Við eigum að segja okkur sögur byggðar á okkar raunveruleika og Blóðberg er mjög íslensk mynd.“