*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 13. maí 2019 18:21

Vildi 3,8 milljónir en fékk 88.801

Þór hf. var í héraðsdómi í dag sýknað af langstærstum hluta af kröfu fyrrverandi starfsmanns um vangoldin laun.

Ritstjórn
epa

Þór hf. var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af stærstum hluta af kröfu fyrrverandi starfsmanns um vangoldin laun í uppsagnarfresti og áunnið orlof en krafan hljóðaði upp á rúmar 3,8 milljónir króna. Ástæðan var trúnaðarbrestur í starfi.

Umræddur starfsmaður hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2010 sem sölustjóri í landbúnaðardeild en Þór sérhæfir sig í sölu á vinnuvélum og tengdum vörum. Félagið annaðist meðal annars sölu á heyþyrlum og sláttuvélum.

Félagið hafði um árabil átt samstarf við Krone en í september 2017 var komið annað hljóð í koppinn og Krone hafði minni áhuga áframhaldandi samstarfi. Fulltrúi Krone kom hingað til lands til fundar við starfsmenn Þórs en á þeim fundi voru umræddur sölustjóri og framkvæmdastjóri Þórs auk fulltrúa Krone. Skömmu síðar var samstarfinu slitið.

Framkvæmdastjórann grunaði að ekki væri allt með felldu á fundinum þar sem sölustjórinn hefði „ekki sagt eitt aukatekið orð á fundinum, en [sölustjórinn] sé yfirleitt orðmargur og hafi gaman að segja frá.“ Eftir fundinn ákvað hann að skoða vinnutölvu sölustjórans auk gagna í skrifborði hans. Við þá athugun komu í ljós ýmis gögn sem bentu til þess að maðurinn ynni störf sín ekki af heilindum. Gögnin fundust meðal annars í „ruslatunnu“ tölvunnar. Var manninum sagt upp störfum fáum dögum síðar.

Það kom síðar í ljós að grunur framkvæmdastjóra Þórs reyndist á rökum reistur en sölustjórinn stofnaði skömmu síðar, í félagi við aðra, nýtt félag sem hóf að selja Krone dráttarvélar. Taldi Þór sér þá heimilt að rifta samningi þeirra og reka sölustjórann fyrirvaralaust.

Dómari málsins taldi sölustjórann hafa unnið að því að fá Krone til að skipta um umboðsaðila hér á landi á meðan hann starfaði enn hjá Þór. Þótti það „nægilega fram komið að [sölustjórinn] hafi sannarlega lagt á ráðin í slagtogi með öðrum [...] að koma á fót atvinnurekstri í samkeppni við [Þór] og haft uppi markvissar aðgerðir í því skyni á sama tíma og í gildi var ráðningarsamningur milli [þeirra].“ Hafði hann því fyrirgert rétti sínum til allra launagreiðslna.

Hins vegar var fallist á að sölustjórinn ætti inni hlutdeild í orlofs- og desemberuppbót. Alls ætti hann inni 88.801 krónu frá Þór og var fyrirtækið dæmt til greiðslu þeirrar upphæðar. Málskostnaður málsins, 1,2 milljónir króna, var felld á sölustjórann fyrrverandi.

Stikkorð: dómsmál