Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði fyrir páska Pennann ehf. af kröfu einkahlutafélags um að hærra verð skildi greitt fyrir rekstur félagsins heldur en samið hafði verið um samkvæmt kaupsamningi.

Í mars 2018 seldi umrætt félag, sem samkvæmt fyrirtækjaskrá stundar nú umboðsverslun með textílefni, fatnað, loðfelda, skófatnað og leðurvörur, rekstur sinn, kynningarefni, lén og lager til Pennans. Kaupverð var 18 milljónir króna. Fimm mánuðum síðar höfðaði félagið mál og krafðist þess að kaupverðið yrði ákveðið hærra. Aðalkrafan hljóðaði upp á 43 milljónir króna en varakrafan var 24,3 milljónir króna.

Eigandi félagsins taldi að kaupverðið hefði verið langt undir markaðsverði og krafðist þess að það yrði ákveðið hærra svo að samkomulagið yrði sanngjarnt.

Á þeim tíma sem kaupin áttu sér stað virðist félagið hafa starfað í framleiðslu og sölu á minjagripum og ýmsum ferðamannavarningi. Í febrúar 2018 sendi fyrirsvarsmaður Pennans póst á fyrirsvarsmann félagsins og sagði að Penninn hefði orðið var við „vaxandi áhuga birgja og aðila á þessum markaði að selja fyrirtæki sín og að salan virtist fara minnkandi.“ Verðið sem hefði verið nefnt væri alltof hátt og að hæfilegt verð væri 10-12 milljónir króna.

„Það má vera að verðið sem nefnt var hafi verið of hátt. Verðið sem þú nefnir finnst mér heldur lágt. Mér sýnist það ekki borga sig fyrir mig að láta fyrirtækið frá mér á þessu verði. Það er spurning hvort hægt sé að finna einhvern milliveg,“ segir í svarpósti frá seljanda til Pennans.

Í svarbréfi Pennans sagði að stjórn fyrirtækisins hafnaði frekari viðræðum um kaup á fyrirtækinu þar sem verðið væri of hátt. Unnt væri að taka málið upp aftur ef „sæmilega raunhæft“ tilboð kæmi fram. Því skeyti var svarað með að „22,5 mkr. + lager á kostnaðarverði væri ásættanlegt“.

Matsgerð háð göllum

Í aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns fyrirtækisins fyrir dómi kom fram að reksturinn hefði legið þungt á henni. Hafi henni verið tjáð að hún gæti mögulega selt reksturinn á þre- til fjórfaldan hagnað. Því vonaðist hún til að geta selt það á sextíu milljónir króna þrátt fyrir að hagnaður ársins 2017 hafi aðeins verið 7,3 milljónir.

Í samskiptum við Pennann vildi hún fá að minnsta kosti 45 milljónir fyrir félagið. Aðspurð um hví hún hefði tekið tilboði sem var miklu lægra sagði hún að „hún hefði verið beitt þrýstingi og að hún hefði misst sjálfstraustið“. Hætta hefði verið að Penninn hætti viðskiptum við félag hennar ef tilboðinu yrði hafnað. Þá voru lögð fram í dómi vottorð frá geðlækni um að sala félagsins hefðu haft slæm áhrif á andlega heilsu konunnar.

Í svörum fyrirsvarsmanns Pennans og síðan vörustjóra fyrirtækisins. Í þeim kom fram að Penninn hefði keypt vörur fyrir 13-15 milljónir króna á ári frá fyrirtækinu. Mikill samdráttur hefði hins vegar verið í sölu á þeim og öðrum sambærilegum vörum.

Undir rekstri málsins var matsgerðar aflað um raunverulegt verðmæti fyrirtækisins. Þar var gert ráð fyrir hóflegum vexti þess, hárri ávöxtunarkröfu og háu eiginfjármögnunarhlutfalli. Ekki hefði verið litið til atburða eftir samningsgerðina, á borð við fall Wow air, við gerð matsins.

Þar segir enn fremur að mikil óvissa hafi verið um að Penninn héldi viðskiptum áfram við fyrirtækið en 36% af tekjum þess komu frá Pennanum. Ljóst væri að slíkt Damóklesarsverð gæti haft mikil áhrif á ákvörðun um hvort selja ætti eður ei. Var það mat matmannsins að óbreytt virði rekstrarins hefði verið 43,1 milljónir króna en 24,3 milljónir króna án birgða.

Þekkti reksturinn betur en nokkur annar

Í málinu var byggt á ógildingarreglum samningaréttarins en skemmst er frá því að segja að dómurinn féllst ekki á að nein þeirra ætti við. Lögum samkvæmt má víkja verðákvæði til hliðar ef það er ósanngjarnt að mati dómsins. Um undantekningarákvæði er að ræða og það því mat dómsins að gæta yrði „fyllstu varúðar í þessum efnum“.

Í niðurstöðu dómsins kom fram að mat matmannsins væri háð ýmsum göllum. Til að mynda hefði ekki verið gert ráð fyrir því að ákveðnar verslanir, sem voru um þriðjungur tekna fyrirtækisins árið 2017, höfðu hætt viðskiptum við það í árslok 2017. Matsgerðin hefði því takmarkað sönnunargildi.

„Telja verður ljóst þegar litið er til gagna málsins að stefndi var í sterkri samningsstöðu gagnvart stefnanda þegar viðræður fóru fram um kaup á rekstri stefnanda seinni hluta febrúar, enda liggur fyrir að stór hluti tekna stefnanda stafaði frá viðskiptum hans við stefnda. Ekki verður þó litið hjá því að fyrirsvarsmaður stefnanda hafði sjálf áratuga reynslu af viðskiptum og að hún hlaut, vegna starfa sinna og eignarhalds á félaginu vera mjög vel kunnug fjárhagsstöðu þess, rekstrarhæfni og framtíðarmöguleikum, burtséð frá því hvort hún hefði formlega menntun á sviði viðskipta,“ sagði í dóminum.

Bent var á að forsvarsmaður fyrirtækisins hafði frumkvæði að viðræðunum og að ekkert í samskiptum aðila benti til þess að Penninn hefði með óheiðarlegum hætti beitt þrýstingi til lækkunar kaupverðs. Þá gæti vanlíðan fyrirsvarsmanns félagsins ekki haft áhrif við þetta mat enda ekkert sem benti til þess að Penninn hefði vitað af eða nýtt sér það ástand.

Penninn var því sýknaður og fyrirtækinu dæmd 1,5 milljón króna í málskostnað frá stefnanda málsins.