Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON, lagði það til í byrjun árs 2001 að sparisjóðakerfið í þeirri mynd sem það var í þá yrði lagt niður og í staðinn stofnaður nýr viðskiptabanki með aðild sparisjóðanna og Kaupþings. Tillögurnar lagði hann fram í framhaldi af vangaveltum um framtíðarskipan sparisjóðakerfisins, að því er segir í skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóðina . Vinnuheiti bankans var SPG-Kaupþing.

Í skýrslunni segir að við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefndinni gerði Guðmundur skýrsluna að umtalsefni og kvað þessa ráðandi túlkun á misskilningi byggða – og kallaði hana hræðsluáróður. Ekki hefði verið ætlunin að allir sparisjóðir rynnu inn í hinn nýja sameinaða banka.

Í skýrslunni segir að ótvírætt sé að tillögurnar hafi falið í sér að bankinn yrði sameinaður Kaupþingi. Á fundi stjórnar Sparisjóðabankans 19. febrúar 2001 fylgdi Guðmundur stefnumótunarhugmyndum sínum eftir með því að leggja fram tillögu um að „gerð verði úttekt á kostum þess og göllum, að sameina Sparisjóðabankann og Kaupþing og nefndi KPMG ráðgjöf í því sambandi. Hann fór sömuleiðis fram á að úttektin yrði tekin fyrir á stjórnarfundi.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að sparisjóðstjórar hafi sett sig upp á móti sameiningunni og því ekkert orðið af henni.