„Þeir eru hissa og urðu fyrir vonbrigðum," sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í Kastljósi í kvöld þegar hann var spurður um viðbrögð Hollendinga og Breta við niðurstöðu í Icesave málinu. Hann sagði erlendu viðsemjendurnir hefðu lagt upp í þennan leiðangur í góðri trú og með breiðum stuðningi íslensku samninganefndarinnar.

Steingrímur sagðist ganga út frá því að samningurinn um endurgreiðslu á Icesave, sem nú verður þjóðaratkvæði um, stæði enn á borðinu. „Við erum að koma því á hreint," sagði hann og það væri verið að hafa samband við erlendu samningsaðilana. Gott samband hefði myndast á milli manna. Stjórnvöld hefðu brugðist yfirvegað við, það væru hollensk og bresk stjórnvöld, þótt einstakir þingmenn hefðu verið með upphlaup. Það þekktist víða sagði Steingrímur. Íslensk stjórnvöld hefðu líka beðið um yfirveguð viðbrögð ef þessi niðurstaða fengist.