Að minnsta kosti tveir alþjóðlegir bankar skoðuðu það alvarlega að setja upp varakerfi hjá sér, sem gætu séð um greiðslur í gömlum evrópskum myntum eins og drökmum og lírum.

Kemur þetta fram í frétt á vef Wall Strett Journal. Þar segir að tæknistjórar þessara tveggja ónefndu banka hafi haft samband við Swift, belgískt sameignarfélag, sem sér um netkerfið sem notað er í alþjóðlegum peningafærslum. Bankarnir vildu fá tæknilega aðstoð og kóða, sem nauðsynlegir væru til að setja upp þessi varakerfi.

Swift neitaði hins vegar að láta af hendi sumar þessara upplýsinga, þar á meðal það hvort gömlu kóðarnir myndu virka í kerfinu. Var það að hluta til vegna þess að Swift óttaðist að ef þetta spyrðist út myndi það auka enn á óvissu og óstöðugleika í evrusvæðinu.

Þessar þreifingar bankanna eru þó til merkis um hve alvarlega bankar og stofnanir líta á þróun mála í Evrópu núna.