Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við viðskiptaskor Háskóla Íslands og hluthafi í Spron, lagði fram breytingartillögu, sem var samþykkt, á launum stjórnar Spron [ SPRON ] til talsverðar lækkunar á aðalfundi félagsins í gær. Hann sagði tillöguna vera liður í því að herja á kostnað bankans.

Vilhjálmur lagði til að laun stjórnarformanns yrðu 210 þúsund krónur á mánuði, laun stjórnarmanna 120 þúsund krónur og varamenn fái 50 þúsund krónur fyrir hvern setinn fund.  Fyrir fundinn lá tillaga stjórnar um að laun væru óbreytt milli ára: 400 þúsund krónur fyrir stjórnarformann og  200 þúsund krónur fyrir stjórnarmenn.

Fundargestur stóð upp í sæti sínu og  skoraði á stjórnina að draga sína tillögu til baka, svo að ekki þyrfti að ganga til skriflegrar kosningar um málið, sem stjórnin gerði.

„Ég vil vekja athygli á því,” sagði Erlendur Hjaltason, sem var kjörinn stjórnarformaður Spron að aðalfundi loknum, “að það fylgi því mikil ábyrgð að sitja í stjórn fjármálafyrirtækis og fyrir slíka ábyrgð á að greiða,” sagði hann.

„Stjórnarseta í Spron er ekki einhver hlutavinna sem maður tekur að sér - sem maður leggur ekki hug sinn og hjarta í -  heldur leggur mikla vinnu í. Ég og við sem setið höfum í stjórninni, höfum lagt mikla vinnu á undanförnu ári í það að sinna þessu starfi og það munum við gera áfram. Hvort heldur fundurinn kjósi það að laun okkar séu 120 þúsund eða 200 þúsund, það skiptir ekki öllu máli,” sagði Erlendur.