„Fyrirtækt eru almennt ekki að fá ný verkefni fjármögnuð af íslensku bönkunum þannig að þau fyrir sem ekki hafa beinan aðgang að erlendum bönkum eru að rifa saman seglin og að óbreyttu stefnir í verulega erfiðleika og atvinnuleysi á haustmánuðum.“

Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í leiðara fréttbréfs samtakanna sem birt var í dag.

Hann víkur meðal annars orðum sínum að stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun og segir, „Fáir höfðu reiknað með því að bankinn lækkaði vexti þrátt fyrir ærið tilefni þannig að framundan er sú braut fyrir atvinnulífið sem mörkuð hefur verið með takmörkuðum aðgangi að erlendu lánsfé og einstaklega óhagstæðum kjörum á innlendu sem erlendu lánsfé.“

Vilhjálmur segir jafnframt að með hækkun á gengisvísitölu íslensku krónunnar upp fyrir 160 og „fyrirsjáanlegum frekari verðhækkunum á næstu mánuðum í framhaldinu hafi lokið þeirri tilraun sem hófst með nýrri peningastefnu á árinu 2001.“

Hann segir að fyrri hluta þessa tímabils hafi tilraunin lofað góðu og efnahagslífið komst vel í gegnum erfiðleika án þess að stöðugleika væri ógnað að nokkru marki.

„Frá árinu 2004 hefur hins vegar gengið afleitlega, þótt vissulega sé ekki við Seðlabankann einan að sakast vegna þess að aðstæður á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum hafa breyst frá því að allt flaut í ódýrum peningum í óhemju óhagstæð skilyrði á síðustu mánuðum,“ segir Vilhjálmur.

„Það breytir þó ekki þeirri niðurstöðu að eftir tíu prósentustiga hækkun stýrivaxta frá 2004 er gengi krónunnar í djúpri lægð og verðbólgan meiri en frá lokum verðbólgutímabilsins mikla og þjóðarsátt. Vaxtahækkanir bankans hafa ekki haft tilætluð áhrif vegna opnunar fjármagnsmarkaðarins og umfangsmikillar verðtryggingar en bankinn hefur engu að síður stýrt málum eins og að áhrifamáttur peningastefnunnar væri raunverulegur.

Niðurstaðan hlýtur að vera eftir þennan tíma og þessa reynslu að nú sé nóg komið og að leita þurfi annarra leiða til að stýra peningamálum þjóðarinnar,“ segir Vilhjálmur.

Ekkert í hendi um betri tíð

Vilhjálmur segir stöðuna í atvinnumálum vera óvenjulega dökka. Hann segir að könnun á áliti forráðamanna stærstu fyrirtækja á ástandinu staðfesti það, þótt fleiri séu á þeirri skoðun að ástandið muni fara batnandi en í síðustu könnunum.

„Ekkert er þó áþreifanlegt í hendi um að staðan fari batnandi. Erlendir fjármagnsmarkaðir eru ekki að opnast fyrir atvinnulífið og meðan það litla fjármagn, sem í boði er, fæst aðeins á  óhagstæðum kjörum er ljóst að það herðir hratt að skuldsettum fyrirtækjum á heimamarkaði og fá ný verkefni fara í gang. Það getur ekki þýtt annað en samdrátt, fækkun starfsfólks og hratt vaxandi atvinnuleysi með haustinu,“ segir Vilhjálmur.