Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og þá seðlabankastjóri, virðist ekki hafa lesið skýrslu endurreisnarnefndar flokksins þegar hann gagnrýndi hana á landsfundinum í mars árið 2009, að sögn Vilhjálms Egilssonar. Vilhjálmur, verðandi rektor Háskólans á Bifröst, leiddi hópinn sem vann að gerð skýrslunnar. Hann segir Davíð hafa ætlað að ráðast gegn sér á landsfundinum en höggið geigað og gagnrýnin öll beinst að flokknum og þeim sem unnu skýrsluna. „Höggið á Sjálfstæðisflokkinn var þungt,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur fer yfir gerð skýrslunnar og gagnrýni Davíðs í grein í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Hann gerði það sömuleiðis í viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins . Í viðtalinu sagði Vilhjálmur að hann hafði um skeið verið mjög gagnrýninn á vaxtastefnu Seðlabankans og Davíð, sem þá var seðlabankastjóri, tekið henni persónulega. „Hann síðan velur á landsfundinum að láta þessa óvild út í mig bitna á flokknum,“ sagði Vilhjálmur og lagði þar áherslu á að gagnrýni Davíðs á skýrsluna hafi kostað flokkinn mikið.

„Litprentaður langhundur“

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra, ávarpar landsfund Sjálfstæðisflokksins árið 2009.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra, ávarpar landsfund Sjálfstæðisflokksins árið 2009.
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)

Davíð svaraði Vilhjálmi í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um síðustu helgi og vísaði þar fullyrðingum Vilhjálms á bug. Í Reykjavíkurbréfinu sagði m.a. að uppnámið á landsfundinum tengt skýrslunni ekki hafa átt sér nokkra stoð í raunveruleikanum. Davíð segir í bréfinu að skýrslan hafi dúkkað upp á fundinum, „litprentaður langhundur“ sem menn hafi ekki fengið í hendur fyrr en á fundinn var komið.

„Umræður urðu litlar sem engar enda engum gefist tóm til að lesa langhundinn. Skýrslan var svo borin upp og samþykkt. Bréfritari, sem kom á þennan fund sem óbreyttur landsfundarfulltrúi, tók engan þátt í hinni takmörkuðu umræðu um þessa skýrslu og var ekki viðstaddur atkvæðagreiðsluna. Hann flutti hins vegar tölu daginn eftir og vék þá að þessari skýrslu örfáum orðum, enda reis hún ekki undir miklu. Um þetta hafa ófáir sjálfskipaðir snillingar skrifað á netpistla og víðar. Þeir hafa flestir harmað að bréfritari hafi „ýtt skýrslunni út af borðinu“, þótt sumir hafi verið mun stóryrtari en það, að hætti hússins.“

Allt opið á netinu

Í grein sinni í Viðskiptablaðinu nú bendir Vilhjálmur þvert á móti á að mikil vinna hafi legið á bak við gerð skýrslunnar og hún verið við allra augum í langan tíma.

Hann segir að Geir H. Haarde, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi falið sér að leiða starfið í lok janúar árið 2009 og því verið skammur tími til stefnu enda stutt í landsfundinn.

„Strax var hafist handa og ákveðið að starf nefndarinnar yrði eins opið og mögulegt yrði þannig að allir þeir sem vildu koma að verkinu gætu tekið virkan þátt [...]. Fjölmennur hópur mætti á fyrsta kynningarfundinn en 80 einstaklingar störfuðu allan tímann og skrifuðu sig fyrir verkinu. Um 200 manns komu að því, mismikið, en ætla má að a.m.k. 100 einstaklingar hafi verið þokkalega virkir í í starfinu. Fjórir vinnuhópar störfuðu sem fjölluðu um uppgjör og lærdóm, hagvöxt framtíðarinnar, atvinnulíf og fjölskyldur og samkeppnishæfni. Innan hvers hóps voru fjölmargir settir til verka til að gera uppköst að ákveðnum hlutum skýrslunnar og á fundum vinnuhópanna var farið yfir málin. Drög að einstökum hlutum skýrslunnar voru sett jafnóðum á heimasíðu nefndarinnar þannig að vinnan var galopin og öllum aðgengileg allan tímann. Þannig voru sjö uppköst birt fyrir hópinn um uppgjör og lærdóm, 11 uppköst fyrir hópinn um hagvöxt framtíðarinnar, 15 uppköst um atvinnulíf og heimili og 29 uppköst um samkeppnishæfni.“