Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fagnar stýrivaxtalækkun Seðlabanka Íslands.

„Það er mjög gott að þetta skuli hafa farið af stað. Þetta er fyrsta skrefið og það á eftir að stíga fleiri," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Bankastjórn Seðlabankans tilkynnti í morgun að hún hefði samþykkt að lækka stýrivexti um 3,5%. Stýrivextir bankans verði því 12%.

Í tilkynningu frá bankanum segir meðal annars að bankastjórnin hafi átt óformlegar viðræður við aðila vinnumarkaðarins og ýmsa fleiri að undanförnu og „yfirfarið þessa alvarlegu stöðu," eins og það er orðað.

Vilhjálmur staðfestir það. „Við höfum verið í óformlegu sambandi við Seðlabankann á undanförnum dögum og farið yfir málin. Við höfum verið að ræða um ástandið, vextina og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðkomu hans og kjarasamninga."

Hann segir að ekkert formlegt hafi komið út úr þessu heldur væri með þessu verið að fara yfir stöðu mála.