„Við erum komin langt út úr öllum mörkum skattlagninga á sparifé. Skattlagning er orðin eignaupptaka,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins kynnti hann fyrir þingmönnum hversu mikið skattlagning hafi aukist hér á landi og afleiðingar þróunarinnar fyrir almenning. Vilhjálmur var með blað í pontu sem hann sagðist þurfa að sýna en þyrfti til þess myndvarpa. Þingmenn fá hins vegar stuttan tíma í þessum lið á Alþingi til að viðra mál sitt og sleit Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, máli Vilhjálms þegar tími hans rann út.

VIlhjálmur segir í samtali við VB.is segir álögur hafa aukist mikið á fjáreignatekjur sem alla jafna nefnast fjármagnstekjur. Við bætist síðan fjársýslugjald á bankana þar sem andlagið eru innlán og auðlegðarskattur.

„Afleiðingin er sú að verðtryggð innlán, sem er brjóstvörn frjáls verkafólks í landinu sem vill eiga verðtryggð innlán, hafa dregist saman um 11% á ári samkvæmt mínum útreikningum - 40% á fjórum árum,“ segir hann og bendir á að hann ætli að halda áfram að tala gegn skattlagningunni þar til þjóðin verður laus undan henni.

„Ég hef annað tækifæri til þess. Ég ætla að kynna þetta aftur undir þessum lið, störf þingsins, en svo get ég lagt þetta í hólf þingmanna,“ segir hann.