Álfheiður Ingadóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem lögð var fram á Alþingi í dag um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi. Tíu þingmenn standa að baki tillögunni og koma frá Vinstri grænum, Samfylkingunni, Bjartri framtíð og Pírötum.

Þannig er lagt til að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að útbúa lagafrumvarp sem tryggi aðskilnað starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka með það að markmiði að lágmarka áhættu þjóðarbúsins vegna bankareksturs og minnka líkur á tjóni almennings af völdum áfalla í bankastarfsemi.

Í greinargerð með tillögunni segir jafnframt að henni sé ætlað að koma í veg fyrir áhættustarfsemi með sparifé almennings. Mikilvægt sé að þegar verið sé að móta leikreglur á fjármálamarkaði til framtíðar verði um leið tryggt að ekki verði aftur unnt að misnota innstæður sparifjáreigenda í viðskiptabönkum í áhættusamar fjárfestingar sömu banka.

Þá er auk þess bent á nauðsyn þess að áhættusömustu bankaviðskiptin séu ekki með óbeinni ríkisábyrgð þar sem hún geti valdið skattgreiðendum og venjulegum sparifjáreigendum miklu tjóni.