Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að í ráðuneytinu hafi verið unnið að því í „dálítinn tíma“, eins og hann orðar það, að gera breytingar á eftirlaunalögunum svonefndu í samræmi við stjórnarsáttmálann.

Aðalatriðið sé að afnema reglur um að menn geti bæði verið á launum hjá hinu opinbera og á eftirlaunum. Ekki komi þó til greina að taka nein réttindi af mönnum sem þeir hafi þegar áunnið sér. Hann vísar því á bug að ágreiningur sé um málið milli ríkisstjórnarflokkanna. Formenn flokkanna séu að ræða málið sín á milli.

„Við erum að tala um ákveðin atriði sem við erum sammála um og vonandi tekst okkur að leiða þetta til lykta. Það er orðið tímabært að gera það,“ sagði hann við fréttamenn í Stjórnarráðinu í gær. Inntur eftir því hvort formennirnir væru ósammála um einhver atriði svaraði hann: „Ekki hefur á það reynt. Við erum að tala um atriði sem við erum sammála um.“

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .