Mette Fredriksen leiðtogi sósíaldemókrata í Danmörku segir nauðsynlegt að byggt verði upp mannúðlegra flóttamannakerfi í landinu en nú er.„Staðan er orðin sú að það koma fleiri flóttamenn til Evrópu en við getum höndlað,“ segir Metta að því er iTromsö segir frá. „Við getum ekki hjálpað öllum flóttamönnum heimsins.“

Verði farið að tillögum flokksins verður ekki lengur hægt að sækja um hæli í Danmörku þegar komið er yfir landamærin eða í hælismiðstöðvum í landinu. Þess í stað verða allir umsækjendur um hæli þegar í stað sendir til móttökumiðstöðvar í þriðja landi, til dæmis í Norður Afríku, þar sem þeir munu vera þangað til unnið hefur verið úr umsókn þeirra.

Flokkurinn sem lengst af hefur stýrt innflytjendamálum Danmerkur

Flokkurinn, sem fengið hefur á sig gagnrýni fyrir ábyrgðarleysi í innflytjendamálum, hefur verið sá stærsti á þingi í landinu í 77 ár og lengst af stýrt landinu. Hann hefur þó verið í stjórnarandstöðu frá 2015 og milli 2001 og 2011, meðal annars vegna aukinnar umræðu um innflytjendamál í landinu og tilkomu flokka sem barist hafa fyrir því að aukin stjórn verði komið á innflutninginn.

Nú hyggst flokkurinn kynna nýja stefnu undir merkjum réttlætis og raunsæis fyrir kosningar sem verða á næsta ári. Þó flokkurinn sé sá stærsti á þingi er hann ekki í ríkisstjórn, sem er leidd af frjálslynda flokknum Venstre undir forystu Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra.

Í nýju stefnunni felst að á móti því að stemma í auknum mæli stigum gegn móttöku hælisleitenda sem banka upp á í Danmörku verði tekið á móti fleiri kvótaflóttamönnum. Jafnframt að aukið fjármagn verði sett í flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna, UNHCR. Samkvæmt Blooomberg hefur nýr formaður nálgast Danska þjóðarflokkinn meira í stefnu og umræðum.

Vilja koma í veg fyrir drukknun á Miðjarðarhafi

Í sumar nefndi Macron forseti Frakklands svipaða lausn til þess að koma í veg fyrir að hundruð þúsunda leggðu upp í hættulega leið yfir hafið. Tugir þúsunda hafa drukknað á leiðinni yfir Miðjarðarhafið á síðustu árum en í dag geta flóttamenn sem og aðrir sem leita hælis ekki sótt um hæli nema vera komnir um borð í evrópskt skip eða á evrópska grund.

Hefur Macron verið sagður reyna að feta milliveginn milli hægri og vinstri með því að reyna að skilja á milli flóttamanna frá stríðshrjáðum löndum og hælisleitenda frá öruggum löndum.