Steinunn Þóra árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir og Ögmundur Jónasson hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um umhverfismat þess efnis að heræfingar, þ.m.t. lágflugsæfingar utan varnar- og öryggissvæða, þurfi að undirgangast umhverfismat.

Tilgangurinn með frumvarpinu er sá að dregið verði úr skaða, sem þingmennirnir telja loftrýmiseftirlitið geti hafi í för með sér, þangað til það verður að lokum bannað. „Þar til tekið hefur verið fyrir hvers lags heræfingar telja flutningsmenn hins vegar rétt að reynt verði með öllum tiltækum ráðum að takmarka þann skaða sem af slíkum æfingum kann að hljótast." segir í greinargerð með frumvarpinu.

Heræfingar afar mengandi

„Nú er það kunn staðreynd að starfsemi af hernaðarlegum toga, þ.m.t. heræfingar, getur haft í för með sér mikil og neikvæð umhverfisáhrif. Hernaðarstarfsemi er oftar en ekki afar mengandi, má í því samhengi benda á mengunarsvæði á og við gömlu herstöðina á Miðnesheiði og gömul skotæfingasvæði bandaríska hersins á Reykjanesskaga," segir í frumvarpinu.

„Auk olíu- og þungmálmamengunar geta heræfingar haft í för með sér umtalsvert ónæði og truflun í formi hljóðmengunar. Dæmi eru um að lágflugsæfingar herþotna hafi raskað ró fólks og komið styggð að dýrum," segir jafnframt.

Í greinargerðinni kemur að auki fram að með því að láta loftrýmiseftirlit sæta umhverfismati geti hagsmunaaðilar, eins og sveitarfélög, komið að athugasemdum og reynt að koma í veg fyrir heræfingar. „Má þar benda á borgarstjórn Reykjavíkur og fyrrverandi borgarstjóra, Jón Gnarr, sem viðrað hefur slík sjónarmið."