*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 22. desember 2017 08:07

Vilja banna tvíundar valrétti

FME segir að Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitið vilji setja skorður á sölu mismunasamninga og banna ákveðna valrétti.

Ritstjórn

Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitið, ESMA, lýsir því yfir að þeir vilji að markaðssetning, dreifing og sala á tvíundarvalréttum til almennra fjárfesta verði bönnuð, sem og setja skorður við sölu á svokölluðum CFD samningum.

Fjármálaeftirlitið birtir á vef sínum úrdrátt og tengil yfir á yfirlýsingu ESMA í heild sinni, en CFD samningarnir, sem stendur fyrir „contracts for difference“ eru ekki þýddir sérstaklega yfir á íslensku, en þeir hafa verið þýddir sem mismunasamningar.

Segir þar að Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitið hafi haft markaðssetningu á þessum fjármálagerningum til skoðunar um nokkurn tíma og þegar hafi nokkur ríki innan ESB ákveðið að setja henni sérstakar skorður.

Telur ESMA þær skorður ekki nægilegar og öryggi fjárfesta sé ekki nægilega vel tryggt. Því hafi eftirlitið í hyggju að nýta sér evrópureglugerð til að bæta úr því.

Nánar til tekið hyggst ESMA skoða leiðir til að:

  1. Banna markaðssetningu, dreifingu og sölu á tvíundar valréttum til almennra fjárfesta; og
  2. Setja skorður á markaðssetningu, dreifingu og sölu á CFD samningum.
Stikkorð: FME bann CFD samningur ESMA tvíundarvalréttur