Breskum bönkum og fjármálastofnunum verður aðeins heimilt að greiða um 2.000 sterlingspund árlega í bónusa, hvort sem er til æðstu stjórnenda eða annarra starfsmanna, verði tillögur breskra íhaldsmanna að veruleika.

Tillögur íhaldsmanna beinast þó fyrst og fremst gegn hefðbundnum viðskiptabönkum, ekki fjárfestingarbönkum nema þeir stundi einnig viðskiptabankastarfsemi.

Íhaldsmaðurinn George Osborne, skuggaráðherra fjármála, kynnti um helgina tillögur sem fela það í sér að fjármálafyrirtækjum verður aðeins heimilt að greiða bónusa í formi hlutabréfa. Þannig verði hægt að losa um allt að 20 milljarða punda í kerfinu, sem hægt verður að nota til útlána eða fjárfestinga í stað þess að greiða þá beint til starfsmanna.

Osborne sagði að óhætt væri að greiða starfsmönnum allt að 2.000 pund, það væri hóflega mikið og innan eðlilegra marka.

Samkvæmt nýjum tölum frá Centre for Economics and Business Research hugveitunni munu fjármálafyrirtæki greiða um 6 milljarða punda í bónusgreiðslur á þessu ári, samanborið við 4 milljarða punda í fyrra.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .