Ríflega helmingur þjóðarinnar er andvígur frekari uppbyggingu álvera ef marka má nýja könnun Gallup. Könnunin var framkvæmd á vegum Landverndar og voru niðurstöður kynntar á aðalfundi félagsins í gær.

30,9% svarenda sögðust hlynntir því að hér yrðu reist fleiri álver en 51,3% svarenda voru andvígir því. Í könnuninni var einnig spurt um afstöðu framkvæmda í Bjarnarflagi við Mývatn og sögðust 43,6% svarenda andvígir virkjanaframkvæmdum þar. 30,5% sögðust hlynnt slíkum framkvæmdum.

Könnun Gallup var netkönnun og fór fram dagana 27. mars til 8. apríl. Valdir voru 1.450 einstaklingar víðsvegar um landið í handahófskennt úrtak. Svarhlutfall var 59,4 prósent.