Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson fjárfestu nýverið í Högum. Þeir ákveða stærð fjárfestingarinnar eftir því hversu gott tækifæri þeir telja hana vera en þeir fjárfesta í því sem þeir þekkja og kunna og eiga auðvelt með að verðmeta. Þeir fylgja skýrri fjárfestingarstefnu sinni við kaup á öllum félögum eins og áður kom fram en að auki líta þeir til þess að félögin hafi öfluga og heiðarlega stjórnendur.

„Við reynum að kaupa í félögum sem við teljum vera undirverðlögð en við viljum ekki kaupa nema verðið sé talsvert undir okkar hugmyndum um virði þeirra. Það eru til félög á Íslandi sem uppfylla okkar hugmyndir um góðan rekstur og við erum búnir að skoða mörg þeirra. Mörg þeirra eru lítil en það er betra að eiga lítið fyrirtæki sem er arðbært en stórt fyrirtæki sem skilar engu.“

Að þessu sögðu eiga þeir einungis í tveimur íslenskum sprotafyrirtækjum, þar á meðal framleiðslufyrirtækinu Völku, en þeir vilja síður fjárfesta í sprotafyrirtækjum og enn síður í svokölluðum „turnaround“ verkefnum.

„Það auðveldar lífið að ákveða fyrirfram hvað hentar manni ekki. Með því minnkar maður líkurnar á að fjárfesta í verkefnum sem maður botnar ekkert í en það er mjög ofarlega á listanum hjá okkur að tapa ekki peningum,“ segir Árni. Hallbjörn tekur undir með Árna og segir betra að missa af fullt af tækifærum sem reynast góð heldur en að taka þátt verkefnum sem hægt er að tapa miklum peningum á.

Ítarlegra viðtal við Árna og Hallbjörn má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak undir liðnum tölublöð hér að ofan.