Til að skapa fyrirsjáanlegt og hagfellt efnahagsumhverfi fyrir fyrirtæki og heimili þurfa hækkanir nafnlauna að vera hóflegar og lágar. Sú reynsla nágrannaríkja hefur reynst vænleg leið til að auka kaupmátt og bæta lífskjör. Þetta kemur fram í grein í Fréttablaðinu í dag eftir Björgólf Jóhannsson, formann Samtaka atvinnulífsins, og Hreggvið Jónsson, formann Viðskiptaráðs Íslands.

„Samningsaðilar forðast í lengstu lög að ógna efnahagslegum stöðugleika. Víðast hvar hafa menn bitra reynslu af óstöðugleika, hárri verðbólgu og endalausu kapphlaupi við að ná í skottið á sér. Og það sem meira er: Menn hafa lært af reynslunni."

Fram kemur í greininni að Samtök atvinnulífsins vilji nálgast kjarasamningana á annan hátt en áður og lagt er áherslu á mikilvægi úttektar McKinsey á samkeppnishæfni Íslands og vinnu á vegum Samráðsvettvangs um aukna hagsæld.

„Í þessu ljósi ber að skoða ósk samtaka okkar og ASÍ til ríkisstjórnarinnar um sameiginlega úttekt á stöðu aðildarviðræðna við ESB. Liður í úttektinni er einnig að kanna kosti og galla þeirra leiða sem koma til greina til að tryggja stöðugleika í verðlags-, gengis- og peningamálum og festu í stjórn efnahagsmála, en einnig til að skapa atvinnulífinu samkeppnishæfa umgjörð og búa heimilum lífskjör í fremstu röð."